Miðstöð munnlegrar sögu

Miðstöð munnlegrar sögu er safn um munnlegar heimildir en jafnframt fræðslu- og rannsóknasetur á sviði munnlegrar sögu. Hún veitir fræðslu um söfnun og notkun munnlegra heimilda og stendur fyrir fræðilegri umræðu um munnlega sögu.  Meginverkefni Miðstöðvarinnar er að safna munnlegum heimildum um sögu lands og þjóðar og varðveita þær til frambúðar. Miðstöðin leitast við að gera safnkostinn aðgengilegan með því að yfirfæra hann á stafrænt form og miðla honum í gegnum skráningakerfi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og vefsíðu Miðstöðvarinnar. Haustið 2015 varð gjörbreyting á aðgengi safnsins þegar Landsbókasafn tók nýtt skráningakerfi í notkun sem veitti notendum rafrænan aðgang að hljóðskrám safnsins.

Sagnfræðistofnun hafði forgöngu um stofnun Miðstöðvar munnlegrar sögu árið 2007. Miðstöðin var upphaflega samstarfsvettvangur Sagnfræðistofnunar, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) og Kennaraháskóla Íslands í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Guðmundur Jónssonar prófessor var forstöðumaður og formaður stjórnar Miðstöðvarinnar fram til 2012 en þá varð Miðstöðin hluti af Landsbókasafni og í stað stjórnar kom fagráð. Guðmundur Jónsson var fulltrúi Sagnfræðistofnunar í fagráði og formaður þess til 2015, en þá tók við af honum Guðni Th. Jóhannesson prófessor.

Aðsetur Miðstöðvarinnar er á fjórðu hæð í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Upplýsingar um Miðstöðina er hægt að finna á vefsíðu hennar, www.munnlegsaga.is, og einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið munnlegsaga@munnlegsaga.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is