Saga íslenskrar utanríkisverslunar 900-2010

Mikil saga án rits

Fyrir afskekkta og fámenna eyju langt úti í hafi var utanlandsverslun mikilsverð. „Fyrr þín gæði fýsilig/fjöldi sótti þjóða“, orti skáldið og það var svo, því að Orkneyingar, Hjaltar, Norðmenn og jafnvel Katnesingar, og síðar Englendingar, Þjóðverjar og Danir, sóttust eftir að tryggja sér sem mestan skerf af Íslandsversluninni.

Verslunareinokun Dana hefur fengið heldur hörð eftirmæli, enda tók hagur Íslendinga fyrst að blómgast á 19. öld með fríhöndlun og frelsi. Svo vel vildi til að allgóðir markaðir fundust fyrir íslenskan saltfisk við lok 18. aldar og varð mikil lyftistöng á 19. öld. Íslendingar bundu miklar vonir við verslunarfrelsi, hafskip í eigu Íslendinga og innlenda heildverslun og komu þessu öllu í kring. Víst er um það að á tímabilinu 1850-1920 komst utanlandsverslun og siglingar til og frá landinu að mestu leyti í hendur Íslendinga sjálfra. Um leið varð utanlandsverslunin æ mikilvægari fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Menn þóttust vita að frelsi og sjálfstæði yrði ekki haldið uppi án utanlandsverslunar á innlendum höndum né heldur án hafskipa í eigu þjóðarinnar.

Þessi mikla saga hefur aldrei verið sögð í heild í samfelldu verki sem er ekki vansalaust. Sagnfræðistofnun ætlar sér að ráða bót á þessu og stendur nú að útgáfu tveggja binda verks, Sögu íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010. Að þessu verki stendur hópur sagnfræðinga og prófessora við Háskóla Íslands. Þeir eru: Helgi Þorláksson prófessor, Frá landnámi til einokunar; Gísli Gunnarsson prófessor emeritus, Afl einokunar; Anna Agnarsdóttir prófessor, Utanlandsverslun Íslands 1787–1830; Halldór Bjarnason aðjunkt (1959–2010) og Helgi Skúli Kjartansson prófessor, Fríhöndlun og frelsi. Tímabilið 1830–1914; Guðmundur Jónsson prófessor, Verslað á 20. öld. Ritstjóri er dr. Sumarliði R. Ísleifsson.

Um ritverkið

Verkið verður gefið út árið 2016. Áhersla er lögð á að það verði læsilegt, alls um 1000 síður, og prýtt miklum fjölda mynda. Þar verða einnig skrár, töflur, gröf og línurit sem auka gildi verksins. Saga 19. og 20. aldar skipar stóran sess í ritinu en gert er ráð fyrir að allt að tveir þriðju hlutar þess fjalli um sögu þessara alda. Þar er af nógu að taka, stórstígar framfarir á 19. öld í kjölfar aukinnar utanlandsverslunar, upphaf nútímans á Íslandi og átök um skipan verslunarmála og að lokum þær miklu breytingar sem hafa orðið á síðustu áratugum 20. aldar og til okkar daga. Í ritinu mun þessi saga sögð og varpað nýju ljósi á sögu fyrri alda.

Til þess að verkið megi heppnast sem best og verði vel úr garði gert þarf allmikið fé. Því hefur Sagnfræðistofnun ákveðið að leita til opinberra aðila og fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi um stuðning við þetta viðamikla og mikilvæga verkefni og hlotið allgóðar undirtektir.

Efnisþættir

Helgi Þorláksson:
Frá landnámi til einokunar
I. Skrif og skoðanir
II. Siglingar og sjálfsþurft. Utanlandsverslun á elstu tíð
III. Feldir og ætlaður blómi. Ellefta og tólfta öld.
IV. Stjórnun viðskipta
V. Hafnir og kaupstaðir fyrir 1300
VI. Vaðmál
VII. Skreið
VIII. Nýjar hafnir og kaupstaðir á 14. öld
IX. Annar útflutningur
X. Innflutningur fram til um 1400
XI. Konungur og Íslandsverslun
XII. Stöðugt verðlag. Hvernig? Hvers vegna?
XIII. Englendingarnir koma
XIV. Gagnsókn Þjóðverja
XV. Þjóðverjar ryðja sér til rúms
XVI. Vörur, verð og samkeppni
XVII. Friðrik II lætur til sín taka
XVIII. Í kaupstöðum

Gísli Gunnarsson:
Afl einokunar
I. Fornir verslunarhættir í fornum samfélögum: Frá upphafi til upplýsingar
II. Fornir verslunarhættir á Íslandi
III. Verðlagsmál og viðskiptakjör
IV. Innflutnings- og útflutningsvörur. Vöruframleiðsla til innanlandsnotkunar og útflutnings um 1770
V. Framleiðsla og útflutningur Íslandsskreiðar
VI. Kauphafnir  1602–1787 og skipastóll í Íslandsversluninni
VII. Verslunarfélög og umdæmakaupmenn einokunartímans
VIII. Arður einokunarverslunarinnar, hve stór var hann, hvert fór hann?

Anna Agnarsdóttir:
Utanlandsverslun Íslands 1787–1830
I. Fríverslun 1787–1807
II. Íslandsverslunin á tímum Napóleonsstyrjalda
III. Enska verslunin á tímum Napóleonsstyrjalda
IV. Verslunin 1814‒1830, eftir stríð

Halldór Bjarnason og Helgi Skúli Kjartansson:
Fríhöndlun og frelsi. Tímabilið 1830–1914
I. Alfrjáls verslun
II. Vægi og áhrif verslunar
III. Umgjörð utanlandsverslunar
IV. Yfirlit

Guðmundur Jónsson:
Verslað á 20. öld
I. Verslun í þjóðlífi Íslendinga
II. Verslun og siglingar í heimsstyrjöldinni fyrri 1914–1918
III. Á hátindi saltfiskaldar
IV. Heimskreppan og hrun alþjóðaverslunar
V. Í umróti heimsstyrjaldarinnar síðari 1939–1945
VI. Haftakerfið í algleymingi 1945–1960
VII. Opnun hagkerfis 1960–1982
VIII. Ísland og alþjóðavæðingin 1980–2010

Nokkur helstu stef og áhersluþættir í verkinu:

1.  Ísland og umheimurinn
Var Ísland einangrað í einhverjum skilningi eða kom utanlandsverslun, bæði hin leyfða og launverslun, í veg fyrir það? Gerði utanlandsverslunin eyþjóðinni Íslendingum kleift að svala útþrá sinni? Komust Íslendingar í nána snertingu við umheiminn með umgengni sinni við erlenda kaupmenn og aðra farmenn við stendur landsins?

2.  Sjálfsþurft og áhrif erlendra markaða
Í hverju var sjálfsþurft fólgin? Hversu háðir voru Íslendingar aðflutningum? Hvaða möguleika höfðu þeir til að hafa áhrif á verðlag? Hverjir ákváðu verð og hvernig? Hvaða tengsl voru milli innlends og erlends verðlags?

3. Áhrif utanlandsverslunar á framleiðslu og atvinnulíf
Hvenær fóru Íslendingar almennt að framleiða gagngert til útflutnings og í hvaða mynd? Hvaða áhrif hafði það t.d. á framleiðslu og verðlag? Jókst framleiðsla? Breyttist verðlag? Eru skreið og saltfiskur dæmi um að erlend eftirspurn hafi breytt atvinnulífi á Íslandi?

4.  Neysluhegðun og áhrif utanlandsverslunar á líf almennings
Hvaða áhrif hafði utanlandsverslun á daglegt líf fólks? Hvenær fóru innfluttar vörur að skipta verulegu miklu um daglega hagi fólks? Hvaða vörur voru það sem mest bar á? Hér má nefna nálar og skæri frá Englandi eða þýskt öl á 15. og 16. öld og síðar vörur eins og kaffi og te. 

5.  Afstaða Íslendinga til utanlandsverslunar
Hvað fannst Íslendingum um erlendan varning, erlenda kaupmenn, breytilegt verðlag og ágóða kaupmanna? Lengi voru þau viðhorf rík meðal þjóðarinnar að innflutningur væri óþarfur, óæskilegur og jafnvel spillandi munaður. 

6. Frelsi og stýring
Hvaða sjónarmið hafa komið fram um frelsi og stýringu? Hvaða rök hafa verið sett fram til stuðnings hvoru sjónarmiði fyrir sig? Á tímum frjálsra viðskipta og markaðshyggju eru menn enn að ræða hvaða afskipti ríkisvaldið eigi að hafa af innflutningi og útflutningi, fjármálum og markaðsmálum almennt.

Aðstandendur verksins telja að verkið muni styrkja frekari rannsóknir á verslunarsögu. Það er því von hópsins að útkoma ritsins verði til að örva umræðu um verslunarsögu og verði öðrum fræðimönnum hvatning til að hefja rannsóknir á þessu sviði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is